Lög Háskóladansins

  1. grein – Heiti og heimili
    1. Félagið heitir Háskóladansinn. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
  2. grein – Hlutverk og markmið
    1. Tilgangur félagsins er að efla dansíþróttina innan háskólasamfélagsins. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að bjóða upp á fjölbreytta dansa og með alþjóðlegu samstarfi við önnur dansfélög.
  3. grein – Aðild að félaginu
    1. Einstaklingur sem hefur greitt félagsgjöld telst félagsmaður þá önn. Kennarar og stjórnarmenn Háskóladansins og einstaklingar í aðstoðarhóp teljast einnig félagsmenn. Aðstoðarhópurinn samanstendur af einstaklingum sem taka þátt í skipulögðu starfi Háskóladansins.
    2. Félagar geta orðið allir þeir sem þess æskja. Félagsmaður getur gerst brottrækur úr félaginu brjóti hann þær reglur sem settar eru í grein 3.3, eftir að hafa áður fengið áminningu frá stjórnarmeðlimum eða kennurum um að breyta hegðun sinni. Einstaklingur sem gerist brottrækur á ekki rétt á endurgreiðslu. Óski brottrækur einstaklingur þess að fá inngöngu í félagið aftur skal sá hinn sami bera það upp við sitjandi stjórn að ári liðnu frá brottrekstri.
    3. Félagsmönnum ber að fylgja jafnréttisstefnu félagsins.
      1. Öll eru velkomin í Háskóladansinn og fólki skal ekki vera mismunað vegna kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kynþáttar, trúar, útlits, fötlunar, uppruna eða annars.
      2. Félagsmenn skulu sýna öðrum félagsmönnum virðingu og vinsemd. Öllum á að geta liðið vel í danstímum og viðburðum á vegum félagsins. Einelti, niðurlæging, áreitni eða slæm framkoma í garð annara verður ekki liðin.
      3. Vinna skal gegn staðalmyndum á borð við föst kynjahlutverk.
  4. grein – Aðalfundur
    1. Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur félagsins skal haldinn ár hvert, í síðasta lagi 15. mars. Til fundarins skal boða á sannanlegan hátt með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og skal getið dagskrár í fundarboði. Málefni sem félagar óska eftir að tekin verði fyrir á fundinum skulu hafa borist stjórn minnst viku fyrir aðalfund. Framboð til stjórnar skal berast stjórn minnst viku fyrir aðalfund. Önnur mál og framboð sem berast eftir að sá frestur er liðinn verða ekki tekin fyrir nema 2/3 hlutar fundarmanna samþykki það. Rétt til fundarsetu hafa núverandi og fyrrverandi félagsmenn.
    2. Dagskrá aðalfundar:
      1. Fundarsetning.
      2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
      3. Lögð fram ársskýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár og umræða um hana.
      4. Kosning fastra nefnda ef við á.
      5. Lagabreytingar ef fyrir liggja.
      6. Kosning stjórnar.
      7. Aðrar tillögur sem borist hafa til stjórnar.
      8. Önnur mál.
      9. Fundarslit.
    3. Á aðalfundi fer hver fundarmaður með eitt atkvæði og ræður einfaldur meirihluti úrslitum, nema varðandi lagabreytingar, þá þarf samþykki 2/3 hluta fundarmanna til þess að breytingar nái fram að ganga. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
    4. Kjörgengur til stjórnar er hver sá sem hefur verið félagsmaður í minnst tvær annir, að meðtalinni núverandi önn, og starfar ekki fyrir annað dansfélag.
    5. Kosið í nýja stjórn á aðalfundi og skulu stjórnarskipti fara fram fyrir lok maí.
  5. grein – Aukaaðalfundur
    1. Stjórn félagsins getur boðað til aukaaðalfundar ef brýna nauðsyn krefur eða ef 60% félagsmanna bera fram skriflega ósk um það. Til slíks fundar skal boðað á sama hátt og til reglulegs aðalfundar. Rétt til fundarsetu hafa núverandi félagsmenn og félagsmenn síðastliðinnar annar.
    2. Dagskrá aukaaðalfundar:
      1. Fundarsetning.
      2. Kosnir fundarstjóri og fundarritari.
      3. Tekin til meðferðar þau mál sem gáfu tilefni til boðunar fundar.
      4. Fundarslit.
  6. grein – Starfstímabil
    1. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
  7. grein – Stjórn
    1. Stjórn félagsins fer með yfirstjórn þess á milli aðalfunda. Hana skipa fjórir til sjö félagsmenn: forseti, varaforseti, gjaldkeri og einn til fjórir meðstjórnendur. Stjórnin skiptir með sér verkum að aðalfundi loknum í samræmi við vinnureglur stjórnar.
    2. Forseti boðar stjórnarmenn á fundi þegar þurfa þykir. Varaforseti gengur í störf forseti ef forseti er fjarverandi. Gjaldkeri annast fjármál félagsins.
    3. Firmaritun félagsins er í höndum stjórnar.
    4. Stjórn ákveður félagsgjöld við upphaf hvers starfstímabils. Við ákvörðun félagsgjalda skal tekið mið af 10. grein.
  8. grein – Breytingar og gildistaka
    1. Tillögu um að leggja félagið niður má einungis leggja fyrir á lögmætum aðalfundi og skal tillagan send félagsmönnum með fundarboðinu. Til þess að slík tillaga nái fram að ganga þarf helmingur félagsmanna að sitja fundinn og 2/3 hlutar þeirra að samþykkja tillöguna. Komi ekki svo margir til fundarins, skal boða til nýs fundar með tveggja vikna fyrirvara og skal hann haldinn innan fjögurra vikna og er sá fundur ályktunarhæfur án tillits til fjölda fundarmanna.
    2. Verði félagið lagt niður renna eignir þess til þeirra stúdentafélaga við þá háskóla sem félagsmennirnir stunda nám við. Hlutfall eigna sem rennur til hvers stúdentafélags skal vera jafnt hlutfalli félagsmanna sem stunda nám við þann háskóla, þegar litið er frá félagsmönnum sem ekki eru háskólanemar.
    3. Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins.
  9. grein
    1. Lögum þessum verður ekki breytt nema á reglulegum aðalfundi félagsins og þá með samþykki 2/3 hluta fundarmanna.
  10. grein
    1. Þátttaka í félagsstarfinu skal vera sjálfboðavinna. Enginn félagsmaður fær greitt fyrir vinnu sína í þágu félagsins.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi félagsins þann 13. mars 2021 og öðlast gildi samstundis.