Lindy Hop

COMPOSITE: Leon James & Willa Mae Ricker demonstrating steps of The Lindy Hop. (LIFE Photo Collectoin 1943 ©Time Inc.)

Lindy Hop er sveifludans sem þróaðist á öðrum og þriðja áratug síðustu aldar í Harlem hverfi New York borgar. Hann varð til úr dönsum á borð við Charleston, Tapp-dans, Breakaway og Jazz og þróaðist samhliða jazztónlist þess tíma. Lindy Hop er yfirleitt dansaður við sveiflu- eða jazztónlist. Lindy Hop kallast stundum Jitterbug, en Jitterbug er í raun samheiti yfir margar tegundir af sveifludansi.

Á þessum tíma voru aðalskemmtistaðirnir danssalir með lifandi tónlist. Stórir danssalirnir eins og The Savoy voru staðirnir þar sem Lindy Hop þróaðist hvað mest. Þar spiluðu reglulega stórhljómsveitir þeirra Cab Calloway, Duke Ellington og Count Basie og mátti sjá skemmtilegt samspil hljómsveitar og dansara.

Dansinn er byggður upp á átta takta kerfi evrópskra samkvæmisdansa en blandar samt við það öðrum takttegundum og skrefum og jafnvel dönsum. Það er hægt að dansa í opinni og lokaðri stöðu, á móti hvort öðru, hlið við hlið eða hvort í sínu lagi. Þetta frelsi í dansinum gerir hann mjög fjölbreyttan.

Lindy Hop er pardans þar sem herrann leiðir og daman fylgir. Góð tenging á milli parsins gerir að verkum að herrann getur leitt fjölmörg flókin skref, sem daman hefur jafnvel ekki lært áður.

Blómaskeið Lindy Hop var frá um 1920 til 1950, en með tilkomu Rock’n’Roll tónlistar tóku aðrir dansar við. Dansinn var hins vegar endurlífgaður á áttunda áratugnum af sænskum, bandarískum og enskum dönsurum eftir að þeir höfðu komist í tæri við gamlar kvikmyndir þar sem Lindy Hop var dansað. Þessir dansarar komu sér svo í samband við gamlar Lindy Hop kempur eins og Frankie Manning, Al Minns, Dean Collins og Normu Miller. Í dag er Lindy Hop dansað um allan heim en það er þó fjölmennast í Bandaríkjunum. Svíþjóð hefur samt orðið hálfgerð Mekka Lindy Hop, en í Herräng norður af Stokkhólmi er árlega haldin stærsta vinnubúð í Lindy Hop í heiminum. Þó að aðaláherslan sé lögð á Lindy Hop eru einnig kenndir aðrir sveifludansar, t.d. Balboa og Boogie Woogie.

Háskóladansinn er með Lindy Hop hóp á facebook. Endilega kíkið á hópinn og þar má finna nýjustu fréttir af Lindy Hop í Háskóladansinum:
Lindy Hop á facebook
Sjá einnig Lindy Hop á Wikipedia